Um okkur
Fyrirtæki
Fjárfestar

Sagan

Árið 1889 var Det Danske Petroleums Aktieselskab (DDPA) stofnað í Danmörku. Þar sem Ísland var á þessum tíma mjög háð innflutningi frá Danmörku hóf DDPA innflutning á steinolíu. DDPA opnaði skrifstofu á Íslandi 1908 og stofnaði dótturfélag árið 1913. Sama ár var Hið íslenska steinolíufélag stofnað og tók það yfir starfsemi DDPA á Íslandi. Árið 1920 var fyrsta bensínstöð þess félags opnuð. Skömmu eftir seinni heimstyrjöldina var Hið íslenska steinolíufélag í nokkrum kröggum og var þá ákveðið að nokkur samvinnufélög ásamt öðrum tækju yfir starfsemi þess. Í þeim tilgangi var Olíufélagið hf. stofnað árið 1946. Helstu stofnendur Olíufélagsins hf. voru SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga), Skúli Thorarensen, Olíusamlag Keflavíkur, Olíusamlag Vestmannaeyja, önnur samvinnufélög og útgerðaraðilar. Árið 1994 voru hlutabréf Olíufélagsins hf. tekin til viðskipta á Verðbréfaþingi Íslands sem síðar varð Kauphöll Íslands og ber nú jafnframt heitið Nasdaq Iceland hf.

Árið 2002 var nafni Olíufélagsins hf. breytt í Ker hf. og Olíufélagið ehf. stofnað í lok árs 2001 um rekstur félagsins er tók til sölu á fljótandi eldsneyti, en Ker hf. stóð eftir sem eignarhaldsfélag um hluti í Olíufélaginu ehf. og öðrum félögum ásamt fasteignum sem færðar voru í sérstakt félag með skiptingu Kers hf. sama ár. Ker hf. var afskráð úr Kauphöll Íslands árið 2003 í kjölfar yfirtökutilboðs Vörðubergs hf.

Árið 2006 var Olíufélagið ehf. selt BNB ehf. sem var stofnað 13. febrúar 2006 en nafni og félagsformi þess síðarnefnda var breytt í N1 hf. árið 2007, samhliða samruna nokkurra félaga innan samstæðunnar. Bílanaust hf., Funahöfði 13 ehf., Hjólbarðahöllin ehf., Hjólbarðaviðgerðin ehf., Hjólvest ehf., Ísdekk ehf., Kúlulegusalan ehf. og Radíóþjónusta Sigga Harðar ehf. voru sameinuð N1 hf. frá 1. janúar 2007. N1 hf. og Umtak fasteignafélag ehf., félag utan um fasteignir N1 hf., voru í fyrstu bæði í eigu BNT ehf., en 2007 fór Umtak fasteignafélag ehf., í eigu Olíufélagsins ehf. sem N1 hf. átti 49% í og Hafsilfur ehf. og Hrómundur ehf. samtals 51%, en við fjárhagslega endurskipulagningu 2011 keypti N1 hf. allar fasteignir af Umtaki fasteignafélagi ehf. Samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu eftir svokallaðan frjálsan nauðasamning 2011 yfirtóku kröfuhafar eignarhald á félaginu. Í árslok 2012 var rekstur N1 á sjö sérverslunum með varahluti, aukahluti í bíla, verkfæri, rekstrar- og iðnaðarvörur ásamt söludeild og tækniþjónustuverkstæði færður í nýstofnað dótturfélag, Bílanaust ehf., og var það selt í maí 2013.

Þann 3. október 2017 tilkynnti N1 um kaup félagsins á öllu hlutafé í Festi hf. Kaupin voru m.a. háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið veitti samþykki sitt fyrir kaupunum þann 30. júlí 2018 með skilyrðum sem fram koma í sátt sem undirrituð var á milli N1 og Samkeppniseftirlitsins.

Festi hf. var stofnað þann 3. september 2013. Var félagið stofnað í þeim tilgangi að kaupa hluta af innlendri starfsemi Norvik ásamt hluta af fasteignasafni Smáragarðs ehf. Með kaupunum eignaðist Festi hf. allt hlutafé í Krónunni ehf. (áður Kaupás ehf.), ELKO ehf., Festi fasteignum ehf. (áður SMG 1 ehf.), Höfðaeignum ehf. (áður SMG 2 ehf.), EXPO Kópavogi ehf. og ISP á Íslandi ehf. Krónan sem er stærsta rekstrarfélag samstæðunnar varð til í maí 1999 með samruna verslana Nóatúns, Kaupfélags Árnesinga og klukkubúðanna 11-11. Krónan rekur jafnframt verslanir undir vörumerkjunum Kjarval og KR en rekstur verslunarinnar Nóatún hefur verið færður yfir í félagið Nóatún ehf. Rekstri EXPO Kópavogi var hætt á árinu 2016 og félaginu slitið. Þá var hlutafé félagsins ISP á Íslandi selt í upphafi ársins 2018.

Þann 29. ágúst 2018 þá var nafni N1 hf. breytt í Festi hf. og nafni Festi hf. breytt í Hlekk hf. og í framhaldinu þ.e. þann 1. janúar 2019 þá var starfssemi N1 færð úr Festi hf. yfir í sérstakt dótturfélag N1 ehf. og vöruhúsastarfsemin yfir í Bakkann vöruhótel ehf.  Þann 1. janúar 2020 þá var Hlekkur hf. sameinaður Festi hf.

Festi hf. er í dag eignarhaldsfélag fimm rekstrarfélaga og snýr starfssemi félagsins að fjárfestingum og stoðþjónustu við rekstrarfélög sín, Bakkann vöruhótel, ELKO, Festi Fasteignir, Krónuna og N1.  Hlutabréf Festi hf. eru skráð í Kauphöll Íslands - www.nasdaqomxnordic.com