Aðalfundur Festi 2023
Aðalfundur Festi hf. verður haldinn þriðjudaginn 22. mars 2023 klukkan 10.00 í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi.
Hluthafar og umboðsmenn geta skráð sig á aðalfundinn á fundarstað frá kl. 09:00 á fundardegi. Jafnframt er tekið við forskráningu hluthafa/umboðsmanna á netfangið fjarfestatengsl@festi.is til kl. 08:00 á fundardegi. Í tilviki forskráningar er óskað eftir að nafn og kennitala hluthafa sé sérstaklega tilgreind og að útfyllt umboðseyðublað, ef við á, fylgi við skráningu.
Dagskrá
- Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
- Skýrsla forstjóra og ársreikningur kynntur.
- Staðfesting ársreiknings fyrir síðastliðið reikningsár og tekin ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað félagsins.
- Ákvörðun tekin um greiðslu arðs vegna rekstrarársins 2022.
- Tillaga stjórnar um breytingar á samþykktum félagsins.
- Tilnefningarnefnd kynnir skýrslu sína og tillögur.
- Tillaga um viðbótarþóknun kjörinna nefndarmanna í tilnefningarnefnd vegna starfsársins 2022 - 2023.
- Stjórnarkjör.
- Tillaga um staðfestingu á ákvörðun stjórnar um skipun tveggja einstaklinga í tilnefningarnefnd.
- Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfirma.
- Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna, undirnefnda stjórnar og tilnefningarnefndar.
- Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu félagsins.
- Tillaga stjórnar um heimild til kaupa á eigin hlutum og samsvarandi breyting á samþykktum félagsins.
- Önnur mál löglega upp borin.
Upplýsingar og skjöl
Á hluthafafundi fylgir eitt atkvæði hverri krónu nafnverðs hlutafjár en hlutafé Festi hf. er að nafnverði kr. 312.500.000. Eigin hlutir félagsins njóta ekki atkvæðisréttar. Á hluthafafundum ræður afl atkvæða úrslitum allra venjulegra mála, nema öðruvísi sé mælt fyrir í samþykktum félagsins eða lögum. Verði atkvæði jöfn við kosningar í félaginu ræður hlutkesti úrslitum.
Öllum hluthöfum er heimilt að sækja aðalfundinn, taka þar til máls og neyta atkvæðisréttar síns. Aðilar sem eru skráðir hluthafar í hlutaskrá samkvæmt hluthafakerfi félagsins þegar aðalfundurinn fer fram geta beitt réttindum sínum á fundinum. Hlutaskrá miðar við uppgjör viðskipta hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð þann 21. mars 2023. Hluthafar geta látið umboðsmann sækja aðalfundinn og fara þar með atkvæðisrétt fyrir sína hönd. Skriflegum umboðum skal skila við skráningu á fundinn. Umboðseyðublað er að finna hér að ofan. Hluthöfum er einnig heimilt að sækja fund ásamt ráðgjafa, en slíkur ráðgjafi hefur hvorki tillögurétt né atkvæðisrétt á fundinum. Hluthafa er þó heimilt að gefa ráðgjafa sínum orðið fyrir sína hönd.
Þeir hluthafar sem óska eftir því að fá tiltekið mál tekið til meðferðar á aðalfundinum skulu senda kröfu um slíkt á netfangið fjarfestatengsl@festi.is í síðasta lagi tíu dögum fyrir fundinn, þ.e. í síðasta lagi fyrir kl. 10:00 sunnudaginn 12. mars 2023. Hafi hluthafi krafist þess að fá mál tekið til meðferðar á fundinum eða lagt fram ályktunartillögu fyrir þann tíma verður endanleg dagskrá og tillögur uppfærðar á vef félagsins og tilkynning birt á Nasdaq Iceland eigi síðar en þremur dögum fyrir fundinn. Hluthafar geta einnig lagt fram spurningar er varða auglýsta dagskrárliði á aðalfundinum sjálfum. Mál, sem ekki hafa verið greind í dagskrá hluthafafundar, er ekki unnt að taka til endanlegrar úrlausnar á fundinum nema með samþykki allra hluthafa félagsins en gera má ályktun til leiðbeiningar fyrir félagsstjórn.
Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn skulu tilkynna það skriflega til stjórnar félagsins að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar, þ.e. föstudaginn 17. mars 2023 kl. 10:00. Þeir einir eru kjörgengir á aðalfund sem þannig gefa kost á sér. Framboðseyðublað er hægt að nálgast hér að ofan. Framboðstilkynningum skal skilað á netfangið fjarfestatengsl@festi.is eða á skrifstofu félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi. Breytist tillaga tilnefningarnefndar frá því er fram kemur í skýrslu nefndarinnar sem birt er samhliða fundarboði verður endurskoðuð tillaga birt eigi síðar en 20. mars 2023. Upplýsingar um alla frambjóðendur verða birtar á þessu vefsvæði eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir aðalfund.
Hluthafar geta óskað eftir því að fá að greiða atkvæði um mál sem eru á dagskrá fundarins bréflega. Skal beiðni um slíka atkvæðagreiðslu hafa borist á skrifstofu félagsins eða á tölvupóstfangið fjarfestatengsl@festi.is fyrir kl. 10:00 föstudaginn 17. mars 2023.
Hluthafafundur er lögmætur án tillits til fundarsóknar ef réttilega er til hans boðað. Aðalfundurinn og fundargögn verða á íslensku.
Kópavogi, 28. febrúar 2023.
Stjórn Festi hf.