Sjálfbærnistefna

Tilgangur

Tilgangur þessarar sjálfbærnistefnu er að vera vegvísir að sjálfbærari rekstri hjá samstæðunni Festi og rekstrarfélögum þess (N1, Krónunni, ELKO, Bakkanum vöruhóteli og Festi fasteignum). Stefnan tekur til mikilvægustu umhverfis- og loftslagsáhrifa, félagslegra þátta og stjórnarhátta sem eiga við um samstæðuna hverju sinni og inniheldur jafnframt lykilmælikvarða og tímasett mælanleg markmið. Alþjóðlega viðurkennd viðmið Nasdaq um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) eru lögð til grundvallar stefnunni.

Stefnan leggur grunn að sýn og stefnuáherslum samstæðunnar um að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í ákvarðanatöku þegar kemur að framtíðarvexti hennar. Þar að auki styður stefnan við þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Festi leggur áherslu á: Jafnrétti kynjanna (5), góð atvinna og hagvöxtur (8), aukinn jöfnuður (10), ábyrg neysla og framleiðsla (12) og aðgerðir í loftslagsmálum (13).

Samstæðan birtir árlegt sjálfbærniuppgjör og skýrslu í samræmi við lög um ársreikninga sem byggir á þeim grunni sem þessi stefna setur fram.

Ábyrgð

Stjórn og framkvæmdastjórn Festi og rekstrarfélaga samþykkja stefnu þessa sem gildir um alla samstæðuna. Ábyrgðaraðili og eigandi hennar er forstjóri Festi og felur hann forstöðumanni stefnumótunar að sjá um innleiðingu stefnunnar í samstarfi við lykilstjórnendur. Stefna þessi og markmið eru endurskoðuð árlega, birt á heimasíðu Festi og kynnt öllum stjórnendum og starfsfólki.

Umhverfismál

Festi og rekstrarfélög eru meðvituð um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið og leitast við að lágmarka neikvæð áhrif hennar eins og mögulegt er. Samstæðan hyggst gera það m.a. með því að:

• Stunda ábyrga auðlindanotkun.

• Kortleggja og setja skýr markmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) - bæði hvað varðar beina og óbeina losun (umfang 1, 2 og 3).

• Draga úr kaupum á umbúðamiklum vörum, minnka losun á úrgangi og auka skilvirkni í flokkun endurvinnsluefna með mælanlegum hætti.

• Leita leiða til að lágmarka sóun á vörum með takmarkaðan hillutíma.

• Styðja við hringrásarhagkerfið og auka endurnýtingarhlutfall.

• Leitast við að bjóða viðskiptavinum umhverfisvænni vörur og þjónustu og auka hlutdeild þeirra sem mest.

• Kortleggja þær áhættur sem steðja að samstæðunni út frá loftslagsbreytingum og öðrum tengdum sjálfbærniþáttum.

• Nýta kraftinn í stærð félagsins og reyna að hafa áhrif á aðfangakeðjuna til að stunda enn ábyrgari og sjálfbærari framleiðslu og viðskipti.

Auk þess að lágmarka áhrif á umhverfið af beinum rekstri þá vinnur félagið að verkefni í vottaðri nýskógrækt samkvæmt kröfum gæðakerfis Skógarkolefnis.

Festi og rekstrarfélög hafa undirritað Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og tileinkað sér markmið hennar með skýrum aðgerðum. Festi mælir og birtir kolefnisspor samstæðunnar í árlegri skýrslu þar sem einnig er farið yfir árangur sem náðst hefur á árinu og næstu skref. Samstæðan stefnir á að vera með nettólosun núll (e. net-zero emissions) árið 2040 sem styður við markmið Íslands um að verða kolefnishlutlaust sama ár.

Félagslegir þættir

Það er mikilvægt fyrir Festi og rekstrarfélög að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir sem laða að og halda í hæft og traust starfsfólk. Er það metið sem hlutverk samstæðunnar og stjórnenda þess að:

• Stuðla að jafnrétti á vinnustað.

• Styðja stjórnendur og starfsfólk til að tileinka sér málefnaleg og sanngjörn samskipti.

• Taka tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfa hæfileikum hvers og eins að njóta sín.

• Líða ekki hvers kyns einelti, ofbeldi eða áreitni.

• Kappkosta að tryggja ánægju, öryggi og vellíðan starfsfólks með góðum aðbúnaði á vinnustað ásamt reglulegri fræðslu og þjálfun.

Þessu til stuðnings notast samstæðan við eftirfarandi vinnutól, reglur, stefnur og vottanir:

• Festi og rekstrarfélög eru jafnlaunavottuð samkvæmt ÍST 85:2015 og með skýra mannauðsstefnu, jafnréttisstefnu og jafnlaunastefnu.
• Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar reglulega til að mæla líðan á vinnustað.

• Reglulega fara fram samtöl milli starfsfólks og yfirmanna, til að stuðla að auknu gegnsæi og bættum samskiptum.

• Rekin er núll-slysastefna sem felur í sér að engin slys eru ásættanleg og árlega er boðið upp á öryggis- og vinnuverndarnámskeið.

• Stutt er við velferð starfsfólks með velferðarpakka sem felur í sér faglega velferðarþjónustu og styrki með það að markmiði að auka lífsgæði starfsfólks og stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Festi og rekstrarfélög styðja við og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda í samræmi við innlend lög sem og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna í allri starfsemi félagsins. Samstæðan virðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafnar með öllu mannréttindabrotum svo sem nauðungar- og þrælkunarvinnu, þar með talin barnaþrælkun. Verði birgi, þjónustu- eða samstarfsaðili uppvís um brot á mannréttindum áskilur Festi og rekstrarfélög sér rétt til að slíta viðskiptasambandi tafarlaust.

Stjórnarhættir

Festi og rekstrarfélög eru meðvituð um þau áhrif sem þau hafa á samfélagið allt í gegnum starfsemi sína og leggja mikla áherslu á að stunda heilbrigða viðskiptahætti í hvívetna. Viðskiptavinirnir skipta félagið höfuðmáli og allt kapp er lagt á að veita þeim framúrskarandi þjónustu og vörur á hagkvæmasta verðinu. Samstæðan leggur sömuleiðis metnað í að byggja upp traust samband við birgja og þjónustuaðila og metur að verðleikum hlutverk þeirra í virðiskeðjunni. Hafa sérstakar siðareglur birgja og þjónustuaðila verið settar til að útlista helstu væntingar samstæðunnar til birgja og þjónustuaðila hennar.

Festi er hlutafélag skráð í Kauphöll Íslands og fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem eru gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf., Samtökum atvinnulífsins og alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Siðareglur Festi hf. gilda um alla starfsemi Festi og rekstrarfélaga, allt starfsfólk sem og þá verktaka, sem sinna verkefnum fyrir það.

Með góðum stjórnarháttum leggja Festi og rekstrarfélög grunn að traustum samskiptum við hagaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gegnsæi og ábyrgð í stjórnun. Helstu hagaðilar samstæðunnar eru:

• Hluthafar í Festi.

• Viðskiptavinir.

• Starfsfólk.

• Birgjar og þjónustuaðilar.

• Samfélagið í heild, sér í lagi samfélög í nágrenni við sölu- og þjónustustaði rekstrarfélaganna.

Aðrir hagaðilar eru helstu eftirlitsaðilar, löggjafarvald, fjárfestar, hagsmunahópar, fjölmiðlar og fjármálafyrirtæki.

Festi og rekstrarfélög eru aðilar að Festu, miðstöð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Félögin halda utan um skuldbindingar sínar og miðla upplýsingum um framvindu þeirra með árlegum skýrslum samkvæmt UFS viðmiðum Nasdaq í ársreikningi og samfélagsskýrslum sínum.

Útgáfa 1.0, samþykkt 19. júlí 2022

Útgáfa 2.0, samþykkt 22. desember 2023

Hér má nálgast sjálfbærniuppgjör ársins 2023

Hér má nálgast sjálfbærniuppgjör ársins 2022

Hér má nálgast sjálfbærniuppgjör ársins 2021

Hér má nálgast sjálfbærniuppgjör ársins 2020