Kaupréttur fyrir fastráðið starfsfólk innan samstæðu Festi hf.

Fastráðið starfsfólk sem hóf störf hjá samstæðunni eftir 1. apríl 2024
Fastráðnu starfsfólki sem hóf störf innan samstæðunnar eftir 1. apríl 2024 og hefur ekki áður fengið boð um að undirrita kaupréttarsamning við Festi stendur til boða að undirrita kaupréttarsamning til tveggja ára. Það á einnig við um fastráðið starfsfólk Lyfju og Heilsu sem komu inn í samstæðuna eftir 1. apríl 2024. Fastráðið starfsfólk er starfsfólk með ótímabundinn ráðningarsamning við félag í eigu Festi hf.
• Kaupréttarsamningurinn veitir rétt til að kaupa hlutabréf í Festi í samræmi við ákvæði samningsins en felur ekki í sér skuldbindingu um kaup.
• Kaupréttarsamninginn þarf að undirrita á tímabilinu 30. apríl til 6. maí 2026.
• Viðmiðunargengi kaupréttarsamnings reiknast sem meðalgengi bréfa í Festi fyrir 10 daga tímabil fyrir 30. apríl 2025.
• Nýtingartímabil kaupréttarins eru tvö frá undirritun kaupréttarsamings, fyrra nýtingartímabilið verður í maí 2026 og það seinna í maí 2027.
✍️ Hvernig skrifa ég undir kaupréttarsamning?
• 30. apríl 2025 sendir Festi kaupréttarsamning á alla sem eiga rétt á að ganga inn í kaupréttarkerfið núna.
• Starfsfólk sem undirritar kaupréttarsamning í ár verður heimilt að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að kr. 500.000 á hverju nýtingartímabili, eða fyrir samtals kr. 1.000.000 á öllu kaupréttartímabilinu.
• Til að öðlast kauprétt þarf að skrifa undir kaupréttarsamning á tímabilinu 30. apríl til 6. maí 2025.
• Ef þú ert undir 18 ára aldri fær forráðamaður þinn sendan kaupréttarsamning sem hann þarf að samþykkja og undirrita fyrir þína hönd.
• Ef þú skrifar ekki undir núna munt þú ekki fá annað tækifæri til að koma inn í kerfið.
🤔 Hvenær get ég nýtt kaupréttinn ef ég skrifa undir samning í ár?
• Nýtingartímabil kaupréttar hefst 12 mánuðum frá undirritun kaupréttarsamnings og því er ekki hægt að nýta kaupréttinn strax.
• Nýtingartímabil kaupréttar eru tvö frá undirritun kaupréttarsamings.
• Fyrra nýtingartímabilið verður í maí 2026 og það seinna í maí 2027.
• Eftir seinna nýtingartímabilið (maí 2027) fellur rétturinn niður.
🧾 Þarf ég að gera eitthvað núna?
• Nei – frekari upplýsingar um kaupréttarsamninga og næstu skref verða send starfsfólki.

Q&A kaupréttarsamningar
1. Hvað er þessi kaupréttur sem verið er að bjóða?
Kaupréttur er samningur sem gefur fastráðnu starfsfólki samstæðunnar rétt til að kaupa hlutabréf í Festi fyrir ákveðna fjárhæð eða ákveðið magn hluta á fyrirfram ákveðnu verði innan ákveðinna og skilgreindra tímamarka. Með þessum kaupréttarsamningi sem þér stendur til boða er þannig verið að veita þér rétt á að kaupa hlutabréf í Festi, í byrjun maí næstu tvö árin, á fyrirfram skilgreindu verði. Þó þú undirritir samninginn þá innifelur það enga skuldbindingu af þinni hálfu um að verða að kaupa hlutabréfin heldur er þetta eingöngu réttur sem þú öðlast. Þannig að ef þú ákveður að nýta ekki þennan rétt þegar hann stendur þér til boða þá fellur hann einfaldlega niður við lok tímabilsins eftir tvö ár.
Rétturinn til að kaupa hlutabréf samkvæmt samningnum opnast í fyrsta sinn í byrjun maí 2026.
Festi er skráð hlutafélag í Kauphöll Íslands og ganga hlutabréf þar kaupum og sölum. Unnt er að nálgast upplýsingar um gengi/verð hlutabréfa í Festi eins og það er á hverjum tíma á eftirfarandi vefslóð: https://keldan.is/Markadir/Hlutabref/FESTI
2. Af hverju er verið að bjóða starfsfólki Festi kauprétti?
Markmið með boði og gerð kaupréttarsamninga er að tengja hagsmuni starfsfólks við afkomu og langtímamarkmið Festi og hluthafa félagsins. Þannig er búin til fjárhagsleg hvatning fyrir starfsfólk þar sem gefinn er kostur á hlutdeild í hækkun virðis Festi sem afleiðing af góðum fjárhagslegum árangri sem störf þess skapa.
3. Öðlast ég kauprétt sjálfkrafa eða þarf ég að aðhafast eitthvað til að njóta slíks réttar?
Nei, þú öðlast ekki sjálfkrafa kauprétt heldur þarf að gera skriflegan samning í hverju tilviki á milli Festi og starfsfólks um réttindin.
Öllu fastráðnu starfsfólki samstæðunnar sem hóf störf eftir 1. apríl 2024 verður boðið að gera samning um kauprétt á hlutum í Festi. Til þess að njóta kaupréttar þarft þú því að undirrita kaupréttarsamning við Festi fyrir lok dags 6. maí 2025.
4. Er mér skylt að gera kaupréttarsamning?
Nei, þér er ekki skylt að gera kaupréttarsamning við Festi. Aðeins er um boð um gerð kaupréttarsamnings og þeirra réttinda sem honum fylgir að ræða en það er svo undir þér komið hvort þú viljir gera kaupréttarsamning eða ekki.
Ef þú ákveður að gera ekki kaupréttarsamning við Festi þá öðlast þú ekki kauprétt á hlutum í félaginu.
5. Stendur kaupréttur til boða fyrir allt starfsfólk samstæðunnar?
Allt fastráðið starfsfólk samstæðunnar í lok mars 2024, óháð starfshlutfalli, átti rétt á að gera samning um kauprétt á hlutum í Festi í fyrra. Í ár hefur fastráðið starfsfólk sem hóf störf eftir 1. apríl 2024 kost á að koma inn í kaupréttarkerfið og undirrita kaupréttarsamning til tveggja ára. Það starfsfólk samstæðunnar sem er með ótímabundinn ráðningarsamning og hefur skuldbundið sig til starfa gegn launum telst fastráðið í þeim skilningi.
Starfsfólk sem ráðið hefur sig tímabundið til starfa hjá samstæðunni, eða er með öðrum hætti lausráðið til skamms tíma, telst ekki fastráðið og á því ekki kost á að öðlast kauprétt samkvæmt þessari kaupréttaráætlun.
6. Á hvaða tungumálum get ég nálgast upplýsingar um kaupréttinn?
Þú getur nálgast almennar upplýsingar um kaupréttinn á íslensku og ensku.
Kaupréttarsamningur sem þér stendur til boða að gera verður á íslensku.
7. Hvernig geri ég kaupréttarsamning?
Festi mun bjóða þér að gera kaupréttarsamning við félagið. Kjósir þú að gera kaupréttarsamning um hluti í Festi þá færðu sendan til þín slíkan samning, miðvikudaginn 30. apríl 2025, á rafrænu formi til yfirferðar og undirritunar í gegnum rafrænt undirritunarferli. Kjósir þú að þiggja boð um kaupréttinn ber þér að undirrita kaupréttarsamninginn fyrir lok dags þriðjudaginn 6. maí 2025.
Undirritir þú ekki kaupréttarsamning innan tilskilins tíma, þá fellur kauprétturinn niður og þar með möguleiki þinn til þátttöku í kaupréttarkerfinu.
8. Þarf ég að greiða kaupverð eða aðra greiðslu við undirritun kaupréttarsamnings?
Nei, þú þarft ekkert að greiða við undirritun kaupréttarsamningsins. Kaupréttarsamningurinn mun mæla fyrir um rétt þinn til að kaupa hlutabréf á ákveðnu verði á fyrirfram skilgreindum nýtingartímabilum sem munu koma til árlega á næstu tveimurárum. Þegar kemur að nýtingartímabilum þarft þú að ákveða hvort og þá að hvaða marki þú vilt nýta kauprétt þinn – og samkvæmt því greiða fyrir hin keyptu hlutabréf í samræmi við efni kaupréttarsamnings.
Nánari upplýsingar um þetta verða sendar í apríl 2026 til þeirra sem undirrita kaupréttasamninginn fyrir lok dags þriðjudaginn 6. maí 2025.
9. Ég er yngri en 18 ára – get ég gert kaupréttarsamning og þarf aðkomu forráðamanns að því?
Já, þér stendur til boða að gera kaupréttarsamning ef þú ert fastráðinn hjá samstæðunni. Ef þú ert yngri en 18 ára og hefur í huga að gera kaupréttarsamning þá þarf forráðamaður þinn jafnframt að samþykkja samninginn fyrir þína hönd. Forráðamaðurinn fær þá sendan slíkan samning, miðvikudaginn 30. apríl 2025, á rafrænu formi til yfirferðar og staðfestingar í gegnum rafrænt undirritunarferli.
10. Hvenær get ég nýtt kaupréttinn og er einhver hámarksfjárhæð á kaupum hlutabréfa samkvæmt kaupréttinum?
Kaupréttartímabilin eru tvö ár frá dagsetningu kaupréttarsamnings og skiptast þau með eftirfarandi hætti:
1. Fyrra tímabilið er frá dagsetningu kaupréttarsamnings og þar til að eitt ár er liðið þar frá (byrjun maí 2026).
a. Við lok fyrra tímabils á starfsfólk rétt á að kaupa hluti í Festi fyrir allt að kr. 500.000.
b. Starfsfólk skal innan tíu (10) viðskiptadaga frá birtingu ársfjórðungsuppgjörs Festi vegna 1. ársfjórðungs 2026 gefa út nýtingartilkynningu kjósi það að nýta kaupréttinn.
c. Ónýttur kaupréttur flyst yfir á næsta nýtingartímabil.
2. Síðara tímabilið er frá lokum fyrsta tímabilsins og þar til að eitt ár er liðið þar frá (byrjun maí 2027).
a. Við lok síðara tímabils á starfsfólk rétt á að kaupa hluti í Festi fyrir allt að kr. 500.000.
b. Starfsfólk skal innan tíu (10) viðskiptadaga frá birtingu ársfjórðungsuppgjörs Festi vegna 1. ársfjórðungs 2027 gefa út nýtingartilkynningu kjósi það að nýta kaupréttinn.
c. Ónýttur kaupréttur fellur niður við lok þessa síðasta nýtingartímabils.
Starfsfólk samstæðunnar sem gerir kaupréttarsamning við Festi í apríl/maí 2025 verður því heimilt að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að kr. 500.000 á ári („hámarkskaupverð“) á hvoru nýtingartímabili, eða fyrir samtals kr. 1.000.000 á öllu kaupréttartímabilinu sem telur tvö ár. Fjöldi hluta sem kaupréttur á hverju tímabili tekur til leiðir af hámarkskaupverði og kaupréttargengi sem fram kemur í kaupréttarsamningi.
11. Er mér heimilt að nýta réttinn að hluta eða fresta því að nýta réttinn á milli tímabila?
Já, þér er heimilt að nýta réttinn að hluta (t.d. kaupa fyrir kr. 250.000 eða aðra fjárhæð að eigin vali upp að hámarksfjárhæð á nýtingartímabili) sem og að fresta nýtingu að öllu leyti á milli nýtingartímabila. Er þér þannig heimilt að fresta nýtingu þinni á réttinum, í heild eða að hluta, á fyrra nýtingartímabili til síðara nýtingartímabils.
Að loknu seinna nýtingartímabili falla allir ónýttir kaupréttir niður.
12. Flyst ónýttur kaupréttur minn sjálfkrafa yfir á næsta nýtingartímabil?
Já, ónýttur kaupréttur þinn á 1. nýtingartímabili flyst sjálfkrafa yfir á næsta nýtingartímabil.
Að loknu öðru nýtingartímabili falla allir ónýttir kaupréttir niður.
13. Hvernig á ég að tilkynna eða láta vita um að ég vilji nýta kaupréttinn?
Upplýsingar um hvernig standa ber að tilkynningu um nýtingu kaupréttar verða sendar í apríl 2026 til þess starfsfólks sem undirritar kaupréttasamninginn fyrir lok dags þriðjudaginn 6. maí 2025.
14. Hvað gerist ef ég nýti kaupréttinn?
Ef þú nýtir kaupréttinn þá eignast þú hlutabréf í Festi gegn greiðslu kaupverðsins og verður þar með hluthafi í félaginu. Hlutum keyptum á grundvelli kaupréttarsamnings munu fylgja öll sömu réttindi og öðrum hlutum í félaginu.
Nýtir þú kauprétt þinn, í heild eða að hluta, ber þér að greiða fyrir hlutabréfin með reiðufé samkvæmt því verði sem mælt er fyrir um í kaupréttarsamningi.
Til þess að geta móttekið hlutabréfin verður þú að eiga vörslureikning verðbréfa. Þú getur stofnað vörslureikning hjá þínum viðskiptabanka eða hjá öðrum banka á landinu. Nánari upplýsingar um það fyrirkomulag verða sendar í apríl 2026 til þeirra sem skrifa undir kaupréttarsamninginn núna.
15. Ef ég nýti kaupréttinn – er mér heimilt að selja hlutabréfin strax aftur?
Já, ef þú nýtir kauprétt og færð afhent hlutabréf gegn umsaminni greiðslu þá er það alfarið á þínu forræði hvernig farið er með þau hlutabréf sem þú hefur keypt. Þú getur þannig kosið að eiga hlutabréfin í heild eða hluta og verið þannig áfram hluthafi í félaginu eða selt þau í heild eða hluta.
16. Ef ég nýti kaupréttinn – get ég tapað á þeim viðskiptum?
Áhætta fylgir hlutabréfaviðskiptum. Komi til nýtingar kaupréttar getur tap orðið af viðskiptum ef markaðsverð hlutabréfanna lækkar niður fyrir kaupverð eftir nýtingu réttarins.
17. Ef ég geri kaupréttarsamning – verð ég að nýta réttinn þegar kemur að nýtingartímabilum?
Nei, það er ávallt á þínu forræði að ákveða innan hvors nýtingartímabils hvort og þá að hvaða marki þú kýst að nýta kaupréttinn. Mikilvægt er að hafa í huga að um réttindi þín en ekki skyldu er að ræða. Felur gerð kaupréttarsamnings því ekki í sér skyldu fyrir þig til að nýta kaupréttinn á nýtingartímabilum.
Ónýttur kaupréttur fellur hins vegar niður við lok síðara nýtingartímabilsins.
18. Hvernig er farið með skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti?
Meginreglan er sú að líta skal á mismun gangverðs og söluverðs/kaupverðs sem starfstengda launagreiðslu sem sætir sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur.
Starfsfólk sem nýtir kauprétt á hlutabréfum, án þess að selja þau aftur á sama ári, færir bréfin til eignar í skattframtali sínu. Þær tekjur sem reiknast af slíkum viðskiptum, þ.e. mismunurinn á gangverði og því verði sem starfsfólk greiddi fyrir bréfin, eru ekki skattlagðar strax heldur þegar eigendaskipti verða á bréfunum (þegar starfsfólk selur bréfin).
Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta slíkar tekjur af hlutabréfum talist til fjármagnstekna starfsfólks á því tímamarki sem bréfin eru seld – og þar með verið skattlagðar í lægri skattprósentu heldur en við á um launatekjur. Til þess að unnt sé að skattleggja tekjur vegna hlutabréfakaupa samkvæmt kaupréttarsamningnum sem fjármagnstekjur þarf starfsfólk að eiga hlutabréfin í tvö ár eftir nýtingu kaupréttarins. Ef misbrestur verður á þessu ber að skattleggja tekjurnar samkvæmt meginreglunni um að telja tekjurnar til launatekna.
Starfsfólk ber sjálft ábyrgð á hverjum þeim sköttum sem kunna að verða álögð vegna nýtingar á kaupréttinum. Festi ber ekki ábyrgð á skattalegum afleiðingum vegna nýtingar rétthafa á kauprétti eða vegna ráðstafana hans á keyptum hlutum.
19. Er mér heimilt að framselja kaupréttinn eða veðsetja hann?
Nei, þér er óheimilt að framselja eða veðsetja kaupréttinn.
20. Fellur kauprétturinn niður ef ég hætti störfum hjá samstæðunni?
Kaupréttur myndast hlutfallslega fyrir hvern mánuð sem þú ert í föstu starfi á ávinnslutíma.
Ávinnsla kaupréttar er bundin því skilyrði að þú starfir fyrir samstæðuna. Látir þú af störfum hjá samstæðunni fyrir lok hins tveggja ára kaupréttartímabils, öðlast þú ekki frekari kauprétt og áunninn en ónýttur kaupréttur fellur almennt niður.
Áunninn kaupréttur fellur þó ekki niður ef þér er sagt upp störfum án þess að uppsögnina megi rekja til vanefnda á ráðningarsamningi eða öðrum starfskyldum, starfslok ber að vegna aldurs, andláts eða vegna óvinnufærni sökum heilsubrests.
21. Má ég selja hlutabréfin strax eftir að ég hef keypt þau?
Engar kvaðir fylgja kaupum á hlutabréfunum þannig að eftir að þú hefur greitt fyrir hlutabréfin þá færðu bréfin afhent frá Festi inn á vörslureikning þinn hjá þínum viðskiptabanka. Hægt er þá hvenær sem er að selja hlutabréfin á markaðnum í Kauphöll Íslands.
Söluhagnaður af viðskiptunum þ.e. mismunur á kaupverði og söluverði hlutabréfanna er skattlagt sem tekjuskattur nema þú eigir hlutabréfin lengur en 2 ár, en þá skattleggst söluhagnaðurinn sem fjármagnstekjuskattur.
Dæmi 1:
Ár 1: Kaupréttur er nýttur og keypt eru hlutabréf fyrir 500 þús. kr. en virði þeirra á þeim degi í Kauphöll Íslands er 600 þús. kr. Starfsmaður ákveður að selja hlutabréfin strax þannig að söluhagnaður myndast af þessum viðskiptum að fjárhæð 100 þús. kr. Starfsmaður þarf að greiða tekjuskatt (í dag ef miðað er við skattþrep 2 37,99%) af söluhagnaðinum eða 37.990 kr. Nettó hagnaður starfsmanns af kaupréttasamningi er því 100.000 – 37.980 = 62.010 kr.
Dæmi 2:
Ár 1: Kaupréttur er nýttur og keypt eru hlutabréf fyrir 500 þús. kr. en virði þeirra á þeim degi í Kauphöll Íslands er 600 þús. kr. Starfsmaður ákveður að bíða með að selja hlutabréfin og heldur á þeim í tvö ár. Þá er virði hlutabréfanna 700 þús. kr. þannig að söluhagnaður myndast af þessum viðskiptum að fjárhæð 200 þús. kr. Starfsmaður greiðir fjármagnstekjuskatt (í dag 22,00%) af söluhagnaðinum eða 22.000 kr. Nettó hagnaður starfsmanns af kaupréttasamningi er því 200.000 – 44.000 = 178.000 kr.
Dæmi 3:
Ár 1: Á nýtingartímabili er markaðsgengi hlutabréfa Festi í Kauphöll Íslands lægra en kaupréttargengi samkvæmt kaupréttarsamningi. Af þeirri ástæðu ákveður starfsmaður að nýta ekki kauprétt sinn. Þar sem áunninn kaupréttur starfsmanns er ekki nýttur flyst hann sjálfkrafa yfir á ár 2 og hefur starfsmaður heimild þá til að nýta kauprétt fyrir allt að 1.000.000 kr.